Punktar f/Sýningar

Tekið af síðu H.R.F.Í

Nokkrir punktar til að hafa í huga þegar sýna skal hund

Texti: Auður Sif Sigurgeirsdóttir
 
 
Fyrir sýningu:

  • Kauptu sýningartaum sem hentar hundinum.
    Gott er að taumurinn sé í sama lit og hundurinn.
    Gæta þarf þess að kaupa ekki of fíngerðan taum fyrir stóra og grófa hunda og ekki of grófan taum fyrir smáhunda.
  • Umhverfisþjálfaðu hundinn, þ.e. farðu með hann á fjölfarna staði, innan um aðra hunda o.s.frv. þannig að hundurinn sé vanur ýmsum aðstæðum.
  • Hundurinn á að vera í mátulegum holdum, vel þjálfaður og vöðvastæltur.
  • Hundurinn þarf að vera vanur því að tennur hans séu skoðaðar. Gott er að æfa þetta reglulega og biðja gesti og gangandi um að kíkja á tennur. Hrósaðu hundinum þegar hann gerir rétt.
  • Hundurinn þarf að vera vanur því að hann sé þreifaður og þurfa karlhundar að vera vanir því að athugað sé hvort þeir séu með tvö rétt staðsett eistu.
  • Þjálfaðu hundinn í að standa í sýningarstellingu (fer eftir viðkomandi tegund hvernig sýningarstellingin er). Hundurinn þarf einnig að vera kyrr meðan dómari skoðar hann.
  • Þjálfaðu hundinn í að hlaupa/brokka fallega við hlið þér/sýnandans.
  • Smáhunda þarf að þjálfa á borði. Dómarinn á að geta skoðað hundinn gaumgæfilega á borði, þ.e. þreifað á honum og skoðað tennur hans. Ef ekki er sýningarborð til staðar er gott að æfa hundinn á venjulegu borði með stamt undirlag svo hann renni ekki til og verði þar af leiðandi óöruggur. Gott er að fá gesti og gangandi til að skoða hundinn á borðinu. Athugaðu vel að hundurinn verði ekki undir neinum kringumstæðum fyrir slæmri reynslu á borðinu. Æfingar á borðinu eiga alltaf að vera skemmtilegar fyrir hundinn og sniðugt er að gefa honum bita þegar hann gerir rétt.
  • Gættu þess að tennur hundsins séu hreinar fyrir sýningu og láttu taka burt tannstein ef hann er til staðar.
  • Nauðsynlegt er að fara í sýningarþjálfanir með hundinn, bæði er það gott fyrir þig/sýnandann og hundinn. Ekki hika við að leita þér upplýsinga hjá reyndum aðilum um allt það sem brennur á þér fyrir sýninguna.
  • Gott er að fara á sýningar og fylgjast með hvernig allt fer fram.
  • Farðu með hundinn í snyrtingu tímanlega (ef þarf) og kynntu þér vel hversu mikla feldhirðu hundurinn þarf fyrir sýningu. Ræktandinn þinn ætti að geta svarað því og leiðbeint þér. Panta þarf tíma á hundasnyrtistofum með góðum fyrirvara þar sem mikið annríki er fyrir hundasýningar.
  • Klipptu klær um viku fyrir sýningu.
  • Mundu að skrá hundinn á sýninguna á réttum tíma!

Á sýningardaginn:

  • Ekki gefa hundinum að borða rétt fyrir sýningu.
    Gott er að gefa honum að borða snemma deginum áður ef hundurinn er sýndur snemma á sýningardaginn eða seint deginum áður ef hann er sýndur seint.
  • Gott er að hundurinn sé passlega svangur á sýningunni því þá er hann ekki þungur á sér á hlaupum og ef notaður er biti á hann verður hann enn sólgnari í bitann!
  • Mikilvægt er að vera snyrtilega klæddur, ekki í sama lit og hundurinn sem er sýndur. Ekki vera í háhæluðum skóm og vertu helst í fötum með vasa þar sem hægt er að geyma nammi. Sýnandinn á ávallt að vera sem bestur bakgrunnur fyrir hundinn.
  • Ekki vera með hárið flaxandi svo það trufli þig ekki.
  • Taktu til bursta, handklæði, skítapoka, sýningartaum, vatnsskál, vatn í flösku, nammibita eða dót fyrir hundinn og myntur fyrir þig (hundar finna oft lykt ef sýnandinn er stressaður og stressast oft upp).
  • Mættu tímanlega og skráðu hundinn inn.
  • Athugaðu hvernig gengur inni í sýningarhöllinni (hvort allt sé á réttum tíma o.s.frv.) Oft eru dómarar mjög fljótir að dæma eða jafnvel frekar lengi.
  • Mikilvægt er að hundurinn sé búinn að gera þarfir sínar áður en hann fer inn á sýningarsvæðið. Ef hundurinn skítur inni í sýningarhring, þá á sýnandinn að vera ávallt með poka í vasanum og hreinsa upp eftir hundinn.
  • Mikilvægt er að vera kominn tímanlega inn á svæðið því hundurinn þarf að venjast aðstæðum.
  • Hafðu hundinn ávallt í taum og vertu með fulla stjórn á honum á sýningarsvæðinu og gættu þess að hann trufli ekki aðra hunda.
  • Sýndu starfsfólki sýningar tillitssemi og farðu eftir því sem það biður um. Dómhringsverðir eru við hvern hring og gegna því mikilvæga hlutverki að allir séu komnir inn í dómhringinn á réttum tíma og í réttri röð.
  • Ef einhverjar spurningar vakna inni í sýningarhring skaltu beina spurningum til starfsmanns inni í hring.
  • Ávallt skal sýna dómara kurteisi og ekki skal ávarpa dómara að fyrra bragði.
  • Hafðu á hreinu hvað hundurinn er gamall í árum og mánuðum.
  • Taktu tillit til annarra sýnenda.
  • Passaðu að alltaf sé nóg bil á milli hundsins þíns og næsta hunds inni í hring bæði á hreyfingu og þegar þeim er stillt upp í röð. Ekki leyfa hundinum þínum að hitta næsta hund þar sem það gæti truflað báða hundana.
  • Aldrei skamma hund harkalega inni í hring.
  • Talaðu glaðlega við hundinn og hafðu þetta skemmtilega stund bæði fyrir þig og hann!
  • Þegar hlaupið eða gengið er með hundinn inni í hring skaltu gæta þess að hundurinn brokki við hlið þér. Ef hann byrjar að stökkva er gott að hægja vel niður og keyra svo aftur upp hraðann. Hundurinn er ávallt vinstra megin við þig.
  • Athugaðu að hafa hundinn fallega uppstilltan þegar dómarinn er að skoða alla hundana. Þegar dómari skoðar alla hundana í röðinni er hann að bera þá saman og þá er eins gott að hundurinn standi eins og best er á kosið!
  • Dómarinn hefur ekki langan tíma til að skoða hundinn þinn. Þess vegna skaltu gera allt sem í þínu valdi stendur til að ná því besta fram í honum. Ef hundurinn er ekki kyrr meðan dómarinn skoðar hann skaltu halda við hundinn og gera dómaranum starfið sem auðveldast. Þegar dómarinn skrifar umsögn um hundinn skaltu hafa hundinn uppstilltan um 1,5-2 m frá dómaranum. Hundinum er ávallt stillt upp á hlið, þ.e. að dómarinn sér hundinn allan í heild sinni (ekki bara frampartinn og ekki afturpartinn).
  • Dómarinn biður sýnandann oftast um að fara fram og til baka (þá er nauðsynlegt að byrja þar sem dómarinn er og fara í beina línu frá dómara og að honum aftur). Þegar hundurinn fer fram og til baka er dómarinn að skoða afturhreyfingar hundsins og framhreyfingar. Mikilvægt er að fara á réttum hraða með hundinn svo hann sýni sem bestar hreyfingar.
  • Dómarinn biður einnig oft um að hundarnir séu hreyfðir í þríhyrning en þá er dómarinn í rauninni eitt hornið á þríhyrningnum. Farið er á ská til hægri frá dómara (afturhreyfingar skoðaðar), beina línu yfir að næsta horni (hliðarhreyfingar skoðaðar) og svo ská að dómara aftur (framhreyfingar skoðaðar). Ávallt er hundurinn hafður í vinstri hönd á hreyfingu.
  • Ef hundurinn er stór skaltu nota allt það pláss sem í boði er en ef hundurinn er lítill er oft nóg að nota um ¾ af hringnum þegar farið er í þríhyrning og fram og til baka.
  • Dómarinn gefur hundinum borða, mismunandi á lit eftir árangri hundsins. Nánari upplýsingar um hvað borðarnir þýða er að finna á heimasíðu HRFÍ www.hrfi.is
  • Aldrei skal vanvirða störf dómara á nokkurn hátt.
  • Það getur alltaf komið fyrir að hundurinn sýni sig ekki eins og best er á kosið á sýningardaginn en þá er um að gera að reyna aftur og gera bara betur næst!

Greinin var birt í 2. tbl. Sáms 2006

Schafer

Nafn:

KRISTJANA

Farsími:

790-6868

Um:

Schafer ræktun - Þýskur fjárhundur

Sýningar- Þjálfun kl 21

atburður liðinn í

7 daga

Schaferdeildarsýning tvöföld 2025

eftir

2 mánuði

14 daga

NKU -Norðurljósasýning HRFÍ 1-2 mars 23 nóv

eftir

1 mánuð

10 daga

Ice Tindra jólaganga kl 13

atburður liðinn í

25 daga

Orivet heilsutest

atburður liðinn í

1 ár

4 mánuði

17 daga

Belcando hundafóður

atburður liðinn í

5 ár

9 mánuði

21 daga

DNA-test

atburður liðinn í

3 ár

9 mánuði

26 daga

Tenglar

Flettingar í dag: 7004
Gestir í dag: 773
Flettingar í gær: 1805
Gestir í gær: 147
Samtals flettingar: 1258538
Samtals gestir: 94398
Tölur uppfærðar: 22.1.2025 16:52:19